Master of Project Management (MPM) námið í Háskólanum í Reykjavík mun taka umtalsverðum breytingum frá og með hausti 2024. Hluti af þeim breytingum er að gerðar eru meiri kröfur á reynslu umsækjenda í verkefnastjórnun. Jafnframt er gert ráð fyrir að nemendur klári IPMA C-vottun í lok námstímans, en það þýðir að viðkomandi eru með a.m.k. þriggja ára reynslu af stjórnun verkefna í gegnum störf og MPM námið.

Háskólann í Reykjavík og Verkefnastjórnunarfélag Íslands (VSF) undirrituðu samkomulag þann 19. janúar sem tryggir Háskólanum afslátt af vottunargjöldum og MPM nemendum stuðning við vottunarferlið.

Haukur Ingi Jónasson, stjórnandi MPM námsins, segir að samkomulagið við VSF sé mjög ánægjulegt þar sem IPMA vottunin sé mikilvægur hluti útskriftar nemenda. Til viðbótar við MPM gráðuna sé vottunin staðfesting á að viðkomandi noti verkefnastjórnunaraðferðir sem eru viðurkenndar um allan heim varðandi hvernig á að stjórna flóknum verkefnum með kerfisbundnum og skilvirkum hætti.