Um IPMA vottanir

VSF hefur ásamt öðrum þjóðum unnið ötullega að því að efla verkefnastjórnun á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Innan vébanda IPMA® hefur verið unnið að því að móta og þróa skilgreiningar fyrir vottun verkefnastjóra á alþjóðlega vísu og hefur VSF frá upphafi tekið virkan þátt í því starfi.

VSF hefur vottað íslenska verkefnastjóra samkvæmt alþjóðlegum kröfum allt frá 1997. Fyrstu vottunarferlin voru með aðstoð erlendra matsmanna sem komu meðal annars frá Þýskalandi, Englandi og Danmörku. Nú er svo komið að reynsla íslenskra matsmanna er orðin mjög góð þannig að ekki er nauðsynlegt að notast við erlenda matsmenn nema einstaka sinnum, þá til að tryggja samræmingu við önnur vottunarferli IPMA®.

Vottun verkefnastjóra

Vottun verkefnastjóra hefur vaxið fiskur um hrygg í áranna rás eins og sjá má í þeim fjölda aðildarfélaga IPMA sem votta verkefnisstjóra samkvæmt þessum skilgreiningum. Nú er vottað samkvæmt IPMA staðlinum í 52 aðildarlöndum IPMA®, af þeim 71 sem sæti eiga í sambandinu í dag.

Í árslok 2015 er heildarfjöldi útgefinna skírteina allra aðildarfélaga 246.453. Hlutfall vottunarstiga er þannig að 0,3% eru með A stigs vottun, 5,5% með B stig, 24,8% með C stig og 69,4% með D stigs vottun. Árleg aukning útgefinna skírteina er tæplega 2%.

Staðfesting á færni og reynslu

Vottun er staðfesting á færni og reynslu verkefnastjórans og hefur alþjóðlega viðurkenningu sem slík. Við alþjóðleg útboð og samstarfsverkefni er lögð aukin áhersla á að gera sérstakar hæfniskröfur til fyrirtækja.

Vottun verkefnastjóra er staðfesting á að viðkomandi fyrirtæki notar starfsmenn til verkefnastjórnunar sem uppfylla slíkar hæfniskröfur. VSF býður upp á 3 af 4 stigum sem vottunarferli IPMA® skiptist í, það eru stig B, C og D.

Gildistími vottunar er 5 ár.