Endurvottun

Vottaðir verkefnastjórar á B, C og D stigi þurfa að sækja um endurvottun eftir 5 ár. Umsóknin verður að berast innan sex mánaða frá því að gildistími skírteinis rennur út. Endurvottunin gildir í 5 ár.

Reglur um gildistíma vottunar á D-stigi breyttust 1. september 2010 og er gildistími skírteina sem gefin er út eftir þann tíma 5 ár, eins og á B og C stigi.  Gildistími D stigs vottunar fram til 1. september 2010 er 10 ár.

Hvert er ferlið?

Endurvottunin felst í því að verkefnastjórinn skilar inn æviágripi, sjálfsmatsblaði og umsóknareyðublaði með upplýsingum um þá reynslu í verkefnastjórnun sem verkefnisstjórinn hefur aflað sér frá útgáfu vottunarskírteinis og upplýsingum um þá endurmenntun og viðhald þekkingar, sem verkefnisstjórinn hefur sinnt á tímabilinu. Reynslan gildir tvöfallt í matinu, á við endurmenntun og viðhald þekkingar.

Mat á reynslu (gildir tvöfallt)

Matið á reynslu verkefnisstjórans er byggt á þremur þáttum: ábyrgð í verkefnum, umfangi verkefna og þeim tíma sem verkefnastjórinn ver af vinnutíma sínum til verkefnastjórnunar.

Verkefnastjórinn er beðinn um að veita upplýsingar um þau verkefni sem hann hefur unnið að og/eða stýrt á tímabilinu. Það verður að koma fram í upplýsingunum hvaða verkefni um er að ræða, umfang þess og hvert hlutverk verkefnastjórans í þeim hefur verið.  Nauðsynlegt er að láta einnig 3 nöfn meðmælenda fylgja með hverju verkefni, þ.e. nöfn einstaklinga sem matsmenn geta haft samband við til að staðfesta þátttöku og hlutverk umsækjanda í verkefninu.

Mat á endurmenntun/viðhaldi þekkingar

Matið á endurmenntun/viðhaldi þekkingar er einnig þríþætt: þátttaka í námskeiðum, þátttaka í ráðstefnum og eigið framlag (erindi sem verkefnastjórinn hefur flutt og/eða námskeið sem hann hefur staðið fyrir og/eða greinar birtar opinberlega).

Kvartanir vegna vinnu umsækjanda

Hafi verið skriflega kvartað undan umsækjanda, vinnu hans/hennar eða fagmennsku, ber honum/henni skylda til að upplýsa um þau tilvik í umsókn sinni til endurvottunar.

Umsóknargögn vegna endurvottunar

Umsóknargögn send á netfangið vottun(at)vsf.is

Niðurstaða

Matsmenn meta út frá þessum upplýsingum og þeim forsendum frá IPMA sem liggja til grundvallar endurvottun hverju sinni, hvort viðkomandi verkefnastjóri á rétt á endurvottun.

Telji matsmenn að upplýsingar sem umsækjandi veitir í umsókn sinni gefi ekki greinargóða mynd af hæfni hans, geta þeir boðið umsækjanda að mæta í viðtal. Neiti umsækjandi hlýtur hann/hún ekki endurvottun.