
Verkefnastjórnunarfélag Íslands óskar forsvarsmönnum VOGL námsins– Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun innilega til hamingju með að hafa á dögunum hlotið IPMA REG viðurkenningu frá International Project Management Association (IPMA). Þetta er fyrsta REG viðurkenningin sem veitt er hér á landi, og við hjá VSF erum bæði afar ánægð og stolt af því að hafa séð um útgáfu hennar sem eini viðurkenndi vottunaraðili IPMA á Íslandi. Viðurkenningin markar mikilvægan áfanga í faglegri þróun verkefnastjórnunarfræðslu á Íslandi og staðfestir að VOGL uppfyllir alþjóðleg gæðaviðmið í kennslu og þjálfun á þessu sviði. Alþjóðlegur gæðastimpill IPMA REG (Education & Training Registration System) er alþjóðlegt skráningarkerfi sem metur og viðurkennir fræðslu- og þjálfunarprógrömm sem uppfylla kröfur IPMA um faglega hæfni samkvæmt alþjóðaviðmiðum IPMA um hæfni verkefnastjóra (ICB - Individual Competence Baseline). Viðurkenningin staðfestir að innihald, kennsluhættir og markmið VOGL-námsins séu í fullu samræmi við þessi alþjóðlegu viðmið og að þátttakendur njóti fræðslu sem byggir á bestu starfsháttum í verkefnastjórnun og leiðtogafærni. Styrkir faglega þróun Með þessari viðurkenningu fær VOGL alþjóðlega stöðu sem skráð þjálfunarprógramm innan IPMA-samfélagsins. Það eykur gildi námsins fyrir nemendur sem nú geta nýtt sér viðurkennda hæfniþróun (CPD) og beina tengingu við IPMA vottanir en VOGL nemendur hafa um árabil lokið náminu með IPMA D vottun– Certified Project Management Associate. Samstarf og framþróun VOGL-námið er þróað og kennt af Nordica ráðgjöf í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands , og hefur á undanförnum árum eflt fjölda stjórnenda og verkefnastjóra með áherslu á bæði faglega og persónulega leiðtogahæfni. Við hjá VSF - Verkefnastjórnunarfélagi Íslands, fögnum þessum tímamótum sem mikilvægu framlagi til verkefnastjórnunar á Íslandi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við VOGL og aðra aðila í þágu fagþróunar og gæðastefnu verkefnastjórnunar. Við óskum VOGL-teyminu innilega til hamingju með árangurinn og þökkum fyrir frábært samstarf í þágu faglegs vaxtar og framfara á Íslandi.

Nýr alþjóðlegur leiðarvísir um IPMA vottun í verkefnastjórnun (ICR 2025 – International Certification Regulations) er nú opin öllum. Skjalið útskýrir á skýran og hnitmiðaðan hátt hvernig vottunarferlið hjá IPMA gengur fyrir sig, hvaða skilyrði gilda á hverju stigi og hvernig matsferli og endurvottun fara fram í öllum aðildarlöndum IPMA - yfir 70 talsins! Markmiðið er að stuðla að gagnsæi, alþjóðlegri viðurkenningu og samræmi í vottunarstarfi IPMA um heim allan. 📌 Helstu atriði: Lýsir uppbyggingu vottunarkerfisins á öllum stigum og sviðum Skilgreinir hæfnisskilyrði og flækjustig Útskýrir lykilferla vottunar og endurvottunar Stuðlar að gagnsæi fyrir umsækjendur, matsaðila og aðra hagsmunaaðila Opinberlega aðgengilegt til notkunar og miðlunar 📄 Sækja skjalið hér → IPMA International Certification Regulations (Public) 2025 Ef þú hefur áhuga á að öðlast alþjóðlega vottun í verkefnastjórnun samkvæmt IPMA 4-L-C kerfinu, þá er þetta gagnlegt upphafsskjal til að kynna sér ferlið og skilyrðin. Nánari upplýsingar á vefsíðu VSF, þar eru reglulegir kynningarfundir einnig auglýstir.
Það er ótrúlega spennandi að segja frá stofnun tveggja nýrra faghópa sem ætla að efla faglega umræðu og þekkingarmiðlun innan verkefnastjórnunar á Íslandi: 🔹 Leiðtogahæfni verkefnastjóra 🔹 Verkefnastofur og verkefnaskrár Sérstakar þakkir fá þeir fjölmörgu félagar VSF sem tóku þátt í stofnfundi faghópa og stjórn VSF fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt sjálfboðastarf í þágu félagsins 💌 📌 Í faghópnum um leiðtogahæfni er áherslan á persónulegan og faglegan vöxt verkefnastjóra – samskipti, orkustjórnun, samningatækni, hvernig við peppum teymi og hvernig við byggjum upp öfluga, örugga og áhrifaríka leiðtoga í verkefnastjórnun. 📌 Í hópnum um verkefnastofur og verkefnaskrár (PMO) eru umræðurnar hagnýtar og djúpar – um ferla, governance, val á verkefnum, áhættumat, tól og tæki, og hvernig við byggjum upp vandað og faglegt utanumhald um fjárfestingasöfn og verkefnapípur. ✨ Stjórnendur hópanna eru komnir til starfa: ➡️ Þröstur Freyr Gylfason leiðir hópinn um leiðtogahæfni ➡️ Þröstur Elvar Óskarsson leiðir hópinn um verkefnastofur og verkefnaskrár Þeir eru báðir með mikla reynslu, djúpa innsýn og frábæran drifkraft – og við erum svo heppin að fá þá til liðs við okkur með öðrum frábærum meðstjórnendum 👏

Opinber stofndagur félagsins er 23.5.1984, en ástæðan fyrir því að viðburðarins var minnst þann 16. er sú að Reinhard Wagner fyrrum forseti IPMA og GPM (þýska verkefnastjórnunarfélagsins) var staddur á landinu til að taka þátt í Degi verkefnastjórnunar sem haldinn var í samvinnu Háskóla Íslands og VSF. Dagskrá með fjölda fyrirlesara var fyrripart dags í HÍ og móttaka hjá VSF kl. 17-19. Í hófinu hjá VSF ávarpaði formaður, Aðalbjörn Þórólfsson, gesti og Reinhard Wagner flutti stutt erindi. Gestir þáðu ljúfar veitingar og styrktu tengslanet sitt með góðu spjalli. Kærar þakkir til gesta sem sýndu félaginu áhuga með þáttöku sinni.

Aðalfundur VSF var haldinn í gær, 4. mars. Eftirfarandi voru kosnir inn í stjórn VSF til tveggja ára: Aðalbjörn Þórólfsson (Projectus) Hugrún Ösp Reynisdóttir (Veitur) Sigfríður Guðjónsdóttir (Íslandsbanki) Eva Björk Björnsdóttir (Reykjavíkurborg) Viktor Steinarsson (Advania) Fyrir í stjórn eru: Bryndís Pjetusdóttir (Verkís) Georg Kristinsson Íris Dögg Jónsdóttir (Rannís) Sigríður Þorsteinsdóttir (Advania) Eftirfarandi hverfa úr stjórn og þökkum við þeim gott starf Sigríður Þorsteinsdóttir Linda Björk Hávarðardóttir Ný stjórn mun koma saman á næstunni og skipta með sér verkum Hér má finna skýrslu formanns um starfsárið 2023





