Jónas Ketilsson fær hæstu alþjóðlegu vottun í verkefnastjórnun, annar Íslendinga

Sterkt bakland stjórnenda hjá Landsvirkjun
Frá vinstri: Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður − loftslag og sjálfbærni, Hörður Arnarson, forstjóri, Alma Stefánsdóttir, sérfræðingur – þróun og auðlindir, Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmda, Bjarni Pálsson, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma, Hjalti Páll Ingólfsson, forstöðumaður – þróun og auðlindir, Jónas Ketilsson, yfirverkefnisstjóri stækkunar Þeistareykja, Valur Knútsson, yfirverkefnisstjóri toppvélar, Agnes Hólm Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri VSF, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis, Axel Valur Birgisson, sérfræðingur – nærsamfélag og náttúra, Elísabet Guðjónsdóttir, sérfræðingur – innkaup.
Alþjóðavottanir IPMA á Íslandi í sókn

Á myndinni má sjá Bjarna Pálsson, framkvæmdastjóra vinds og jarðvarma ásamt Jónasi Ketilssyni, með glænýja IPMA A skírteinið
Jónas Ketilsson, yfirverkefnastjóri hjá Landsvirkjun, hefur hlotið IPMA Level A – Programme Director vottun, hæstu alþjóðlegu viðurkenningu IPMA fyrir forystu í áætlanastjórnun mjög flókinna verkefnasafna. Hann er annar Íslendingurinn til að hljóta alþjóðlega A-vottun en sá fyrsti til að ljúka vottunarferli hér á landi með aðkomu erlendra matsaðila Alþjóða verkefnastjórnunarfélagsins IPMA (International Project Management Association).
Frá árinu 1995 hefur IPMA vottað hátt í hálfa milljón verkefnastjóra í yfir 70 löndum. Jónas Ketilsson bætist í fámennan hóp um 2400 leiðtoga í heiminum sem hafa fengið IPMA A-vottun eða undir 0,5% af vottuðum verkefnastjórum.
Orkugeiri og opinber stjórnsýsla
Jónas Ketilsson starfar sem yfirverkefnisstjóri stækkunar Þeistareykjastöðvar þar sem hann leiðir stefnumótun, stjórnun og samþættingu stækkunarinnar. Á síðustu þremur árum hefur hann gegnt lykilhlutverki í þróun nýrrar tækni, leitt umbreytingu fjölþættra leyfis- og umhverfisstjórnunarþátta, þróun og innleiðingu alþjóðlegra viðmiða auk samþættingar fjölmargra verkefna og hagsmunaaðila tengdri stækkuninni. Áður starfaði Jónas Ketilsson í um átta ár sem yfirverkefnisstjóri og næstráðandi á Orkustofnun.
Bjarni Pálsson, framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun og forseti Alþjóða jarðvarmasambandsins:
„IPMA A-vottun er ein af æðstu viðurkenningum á sviði áætlanastjórnunar. Slík hæfni skiptir máli fyrir áframhaldandi þróun jarðhitageirans á heimsvísu, þar sem fagmennska og áreiðanleiki eru lykilforsendur. Starf Jónasar Ketilssonar undanfarna tvo áratugi hefur stutt við jákvæða framþróun jarðvarmans sem raungerðist í undirbúningi að stækkun Þeistareykja. Viðurkenningin er mikilvæg staðfesting á þeim gæðum og fagmennsku sem einkenna starfsemi Landsvirkjunar. “
Agnes Hólm Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Verkefnastjórnunarfélags Íslands:
„Vottun Jónasar Ketilssonar er mikilvægt skref fyrir íslenskt verkefnastjórnunarsamfélag og staðfesting á hæfni sem stenst ströngustu alþjóðlegu kröfur. Umsögn IPMA matsaðila undirstrikar afburðaárangur Jónasar:
“The candidate has demonstrated prominent capability to operate in a complex, highly regulated, and multi-stakeholder environment to align programs with organizational strategy. His decisions reflect a strong understanding of governance, benefits realization, and sustainable value delivery which fully meets the expectations of the IPMA-A Program Director certification.
At a personal level, the candidate exhibited a high degree of self-reflection, integrity, and leadership maturity. He demonstrated emotional intelligence and ethical judgement while operating under uncertainty, conflict, and pressure. His leadership style fosters trust and engagement, confirming his role as a credible senior leader. These personal competencies strongly support his effectiveness as a Program Director.”
Við hjá VSF erum afar stolt og vonum innilega að þessi áfangi verði öðrum hvatning til að sækja sér IPMA Level A vottun í framhaldinu.
Alþjóðlegar IPMA-vottanir í verkefnastjórnun eru í sókn hér á landi og árið 2025 markar tímamót – ekki aðeins með fyrstu IPMA Level A vottuninni sem veitt er á Íslandi, heldur einnig með meti í fjölda IPMA Level B og C vottana.
Sem fyrsta IPMA Level A vottunin sem Verkefnastjórnunarfélag Íslands veitir, er þessi áfangi jafnframt sterk hvatning fyrir enn fleira fagfólk til að sækja fram og þróast áfram á þessu sviði.
Á myndinni að neðan má sjá Agnesi Hólm Gunnarsdóttur, ábyrgðaaðila IPMA vottana á Íslandi afhenda Jónasi IPMA A skírteinið:




