VOGL námið hlýtur IPMA REG viðurkenningu
13. október 2025

Mikilvæg tímamót í verkefnastjórnun á Íslandi
Verkefnastjórnunarfélag Íslands óskar forsvarsmönnum VOGL námsins– Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun innilega til hamingju með að hafa á dögunum hlotið IPMA REG viðurkenningu frá International Project Management Association (IPMA).
Þetta er fyrsta REG viðurkenningin sem veitt er hér á landi, og við hjá VSF erum bæði afar ánægð og stolt af því að hafa séð um útgáfu hennar sem eini viðurkenndi vottunaraðili IPMA á Íslandi.
Viðurkenningin markar mikilvægan áfanga í faglegri þróun verkefnastjórnunarfræðslu á Íslandi og staðfestir að VOGL uppfyllir alþjóðleg gæðaviðmið í kennslu og þjálfun á þessu sviði.
Alþjóðlegur gæðastimpill
IPMA REG (Education & Training Registration System) er alþjóðlegt skráningarkerfi sem metur og viðurkennir fræðslu- og þjálfunarprógrömm sem uppfylla kröfur IPMA um faglega hæfni samkvæmt alþjóðaviðmiðum IPMA um hæfni verkefnastjóra
(ICB - Individual Competence Baseline).
Viðurkenningin staðfestir að innihald, kennsluhættir og markmið VOGL-námsins séu í fullu samræmi við þessi alþjóðlegu viðmið og að þátttakendur njóti fræðslu sem byggir á bestu starfsháttum í verkefnastjórnun og leiðtogafærni.
Styrkir faglega þróun
Með þessari viðurkenningu fær VOGL alþjóðlega stöðu sem skráð þjálfunarprógramm innan IPMA-samfélagsins. Það eykur gildi námsins fyrir nemendur sem nú geta nýtt sér viðurkennda hæfniþróun (CPD) og beina tengingu við IPMA vottanir en VOGL nemendur hafa um árabil lokið náminu með IPMA D vottun– Certified Project Management Associate.
Samstarf og framþróun
VOGL-námið er þróað og kennt af Nordica ráðgjöf í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, og hefur á undanförnum árum eflt fjölda stjórnenda og verkefnastjóra með áherslu á bæði faglega og persónulega leiðtogahæfni.
Við hjá VSF - Verkefnastjórnunarfélagi Íslands, fögnum þessum tímamótum sem mikilvægu framlagi til verkefnastjórnunar á Íslandi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við VOGL og aðra aðila í þágu fagþróunar og gæðastefnu verkefnastjórnunar.
Við óskum VOGL-teyminu innilega til hamingju með árangurinn og þökkum fyrir frábært samstarf í þágu faglegs vaxtar og framfara á Íslandi.



