Ný framkvæmdastýra hjá VSF
Stjórn VSF hefur gengið frá ráðningu Agnesar Hólm Gunnarsdóttur sem nýrrar framkvæmdastýru félagsins. Agnes hefur töluverða reynslu af verkefnastjórnum, en hún hefur m.a. verið deildarstjóri verkefnastýringar hjá Advania, gæðastjóri og ábyrgðaraðili fyrir fagþróun í verkefnastjórnun hjá Verkís, Lean umbótasérfræðingur og verkefnastjóri hjá Alcoa, stundakennari og leiðbeinandi lokaverkefna í verkefnastjórnun hjá HR og fyrirlesari á ýmsum ráðstefnum.
Agnes tók við keflinu af Theodóri Ottóssyni þann 1. júní 2024, en Theodór lætur af störfum sökum aldurs eftir að hafa stýrt félaginu í rúm 12 ár.
Aðalbjörn Þórólfsson, formaður VSF, er mjög ánægður með aðkomu Agnesar. „Um leið og ég þakka Theodóri fyrir hans mikla starf er ég mjög spenntur fyrir því að fá Agnesi til að leiða félagið. Hún hefur mikla reynslu og brennur fyrir því að efla verkefnastjórnun á Íslandi. Einnig hefur hún sýnt það á sínum ferli að hún kemur hlutum í verk og er óhrædd við að gera nýja hluti.“
Agnes er full tilhlökkunar að takast á við þetta nýja verkefni: „Ég er gífurlega spennt fyrir að taka við þessu hlutverki. Eftirspurn eftir faglegri verkefnastjórnun á Íslandi er mikil og á örugglega eftir að aukast enn meira. Það er vegna vaxandi flókinna verkefna og þörf fyrir skilvirkari stjórnun á breytingum. Fleiri hafa einnig áttað sig á breiddinni í faginu og hvað verkefnastjórnun er mikilvægur árangursþáttur til að ná markmiðum skipulagsheildar. Tækifærin eru endalaus og ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í að efla verkefnastjórnun á Íslandi.”